Nú eru tvö ár liðin frá fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave samningana þar sem rúmlega 98% kjósenda höfnuðu því að ábyrgjast Icesave kröfurnar í stað þess að ábyrgðin sé á þrotabúi Landsbanka Íslands. Á ýmis atriði Icesave málsins reynir nú fyrir Landsdómi.

Í málsmeðferð saksóknara Alþingis gegn Geir H. Haarde í Landsdómi hefur ýmislegt athyglisvert komið fram. InDefence hópnum þykir það miður að ekki séu nýttar undanþáguheimildir laga til að tryggja beinan aðgang að upplýsingum og afritum af frásögnum aðila og vitna í dómsmálinu, sem á sér ekki hliðstæðu.

Eðlilegast væri að almenningur fengi beinan aðgang að réttarhöldunum í gegnum ljósvakamiðla og aðgang að málsskjölum eða afriti af vitnisburði vitna. InDefence hópurinn skorar á Landsdóm að ráða bót á þessu tafarlaust.

InDefence vekur athygli á því að í vitnastúkuna eru einungis boðaðir innlendir aðilar, þ.e.a.s. stjórnmálamenn, embættismenn og bankamenn. Hér vantar innsýn í viðhorf erlendra málsaðila enda þurfa dómendur að lokum að skera úr um sekt eða sýknu hins ákærða og ljóst að neðangreindir aðilar geta vitnað um ýmis lykilatriði við mat á nokkrum liðum ákærunnar í Landsdómsmálinu.

InDefence skorar því á saksóknara Landsdómsmálsins að kalla til vitnis eftirfarandi aðila:

1. Alistair Darling, f.v. fjármálaráðherra Bretlands. Hver var ástæðan fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslandi? Hver var upplifun hans af fundi með þáverandi viðskiptaráðherra og íslenskum embættismönnum 2. september 2008? Sbr. umfjöllun í bók hans „Back from the Brink“. Voru einhverjar lausnir í boði frá hendi breskra yfirvaldar og þá hverjar?

2. Hector Sants, forstjóra FSA. Hvað var því til fyrirstöðu að færa Icesave undir Heritable Bank eða sérstakt útibú?

3. Mervyn King, seðlabankastjóra Bank of England. Í hverju fólst tilboð hans um aðstoð við að minnka íslenska bankakerfið?

4. Timothy Geithner, f.v. seðlabankastjóra Federal Reserve í New York. Hvers vegna var Seðlabanka Íslands neitað um lánafyrirgreiðslu á haustmánuðum 2008?

5. Joaquin Almunia, fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hvers vegna fékk Ísland ekki aðild að fjármálastöðugleikasamningi ESB?

6. Yfirmann innstæðutrygginga innan ESB. Er það réttur skilningur að innstæðutryggingar séu ekki ríkistryggðar? Hvaða úrræði hafa ríkisstjórnir í ESB- og/eða EES-ríkjum til þess að stýra og hefta vöxt banka innan þess regluverks sem fjármálastarfsemi lýtur í þessum ríkjum?
Nánari upplýsingar:

Ragnar F. Ólafsson, farsími: 864-0535

Ólafur Elíasson, farsími: 698-2004

PDF: Frettatilkynning vegna málflutnings í Landsdómi 8.3.2012

Ragnar F. Ólafsson, meðlimur í InDefence hópnum, fjallar um gallana á innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins í desemberhefti tímaritstis Þjóðmál. Ragnar, færir rök fyrir því að engir  sér-íslenskir gallar á innistæðutryggingakerfinu hafi leitt til þess að íslenski Tryggingasjóðurinn gat ekki staðið í skilum með greiðslur á lágmarkstryggingu vegna Icesave reikninganna.:

“Í engu Evrópulandi hefði tryggingasjóðurinn getað staðið við skuldbindingar sínar við slíkar aðstæður og raunar þarf miklu minna áfall til þess að innstæðutryggingasjóðir í Evrópu eigi í verulegum vandræðum.”

Í greininni fjallar Ragnar um nokkra áhættuþætti innistæðutryggingasjóða, s.s. mikinn stærðarmun banka, mismunandi fjölda fjármálastofnana í hverjum sjóði og litla getu sjóða ESB landanna til að greiða út tryggingar vegna stórra áfalla í bankakerfum aðildarríkjanna.

“Til samanburðar má hafa í huga að hér á landi lentu um 85% innstæðna í uppnámi. Niðurstöður þessa „þolprófs“ sýna að eignir innlánstryggingasjóða árið 2004 dugðu einungis fyrir 0,7% af tryggðum innlánum að meðaltali. Tryggingasjóðir ESB-ríkjanna gátu staðist „lítið áfall“ og einhverjir þeirra gátu staðist „miðlungs áfall“. En enginn innstæðutryggingasjóða ESB-ríkjanna gat hins vegar staðist „stórt áfall“ (3,24% innstæðna). Og enginn innstæðutryggingasjóður gat staðist fall banka, ef gert var ráð fyrir því að hann hefði útibú í öðru ESB-ríki. Í slíku tilfelli hefðu viðkomandi sjóðir þurft að afla allt að 44 sinnum þess fjármagns sem til var í þeim, ættu þeir að geta greitt út tryggðar innstæður.”

Ragnar rifjar einnig upp nokkur fordæmi um haldleysi innistæðutrygginga í Bandaríkjunum og undrast réttilega að Evrópusambandið skyldi byggja sitt kerfi á svo gölluðu fyrirkomulagi:

“Þessi fordæmi voru öllum ljós og erfitt að skilja hvers vegna Evrópusambandið kaus að innleiða svona gallað kerfi. Það er nauðsynlegt að bregðast við þessum takmörkunum í stað þess að gera því skóna að íslensk stjórnvöld hafi ekki innleitt kerfið á réttan hátt. “

Ragnar lýkur grein sinni á viðvörun um að við endurskoðun laga um innistæðutryggingar á Íslandi sé bráðnauðsynlegt sé að taka mið af  göllum innistæðutryggingakerfis Evrópusambandsins:

“Mikilvægt er að lögin endurspegli þau úrræði sem raunverulega er gripið til, en veiti ekki falskt öryggi á forsendum kerfis, sem ýtt er til hliðar um leið og reynir á það.”

Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti í dag að stofnunin myndi stefna íslenska ríkinu fyrir EFTA dómstólnum vegna Icesave málsins. Í tilkynningu ESA segir m.a.:

Samkvæmt tilskipuninni bar Íslandi að tryggja greiðslu lágmarkstryggingar til hvers Icesave sparifjáreigenda að lágmarki 20.000 evrur. Nú eru rúmlega þrjú ár liðin og Ísland hefur ekki enn uppfyllt skyldur sínar.

Tilskipunin leitast við að auka traust neytenda/innstæðueigenda á bankakerfinu ef bankastofnanir verða gjaldþrota. Bankakerfið byggir á trausti og tiltrú neytenda og tilskipunin hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því sambandi.

Þann 10. maí 2010 sendi ESA Íslandi áminningarbréf og gaf stjórnvöldum tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu sinni. Eftir að hafa farið vandlega yfir svör íslenskra stjórnvalda í maí 2011 sendi ESA Íslandi rökstutt álit þann 10. júní 2011. Tilgangur þess var að veita  stjórnvöldum tækifæri á að uppfylla skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni.

Ísland hefur svarað rökstuddu áliti ESA en brýtur enn gegn skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni.

ESA heldur við fyrri afstöðu sína. Ísland verður að uppfylla þær skyldur sem það hefur undirgengist með aðild að EES-samningnum. Því ber að tryggja greiðslur til allra innstæðueigenda, án mismununar, samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í tilskipuninni um innstæðutryggingar“, ítrekar Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA.

Málið verður nú lagt fyrir EFTA dómstólinn þar sem Ísland fær fullt tækifæri til að færa fram sín rök í málinu. Ef EFTA dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi gerst brotlegt við EES-samninginn, þarf Ísland að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að niðurstöðu dómsins eins fljótt og auðið er.

 

Í tilkynningunni er einnig að finna samskipti ESA og Íslands vegna málsins og stefnu ESA til EFTA dómstólsins:

 

Communication between The EFTA Surveillance Authority and the Government of Iceland

26 May 2010
-  The Authority’s letter of formal notice to the government of Iceland

2 May 2011
-  Iceland’s reply to the Authority’s letter of formal notice

10 June 2011
-  The Authority’s reasoned opinion

30 September 2011
-  Iceland’s reply to the Authority’s reasoned opinion

14. December 2011
-  
Iceland to be taken to court for failing to pay minimum compensation  

-  The EFTA Surveillance Authority’s application to the EFTA Court

-  ESA background information Q & A on the Icesave EFTA Court case

InDefence hópurinn sendi fjárlaganefnd Alþingis umsögn um Icesave 3 samningana þann 10. janúar 2011. Í umsögninni er m.a. fjallað um jákvæðar breytingar frá fyrri samningum og fjárhagslega áhættuþætti vegna samninganna (m.a. gjaldmiðlaáhættu og hraða innborgana á höfuðstól) og ítarlega fjallað um áhrif jafnstöðuréttar samningsaðila (Pari passu). Gerðar eru athugasemdir við greinargerð með frumvarpinu og lögð áhersla á að áhrif dómstólaleiðar verði metin á skýran hátt. Einnig er sýnt fram á að íslenski tryggingasjóðurinn (TIF) var á engan hátt frábrugðinn tryggingasjóðum ESB ríkja og innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins gerð skil í viðauka.

Umsögn InDefence hópsins má hlaða niður í heild sinni hér, en niðurstöður umsagnarinnar eru svo hljóðandi:

7. Niðurstöður.

Allt frá því að þjóðin hafnaði með afdráttarlausum hætti fyrri Icesave samningunum þann 6. mars 2010 hefur málflutningur InDefence hópsins verið óbreyttur. Hagsmunir allra samningsaðila í Icesave deilunni kunna að fela það í sér að samningur um lausn málsins sé eðlilegri niðurstaða en að hafa umrædda milliríkajdeilu óleysta. Grundvallaratriði sé hins vegar
að slíkur samningur endurspegli þá þrjú meginatriði:

1. Að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga.
2. Að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila.
3. Að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila.

Að mati InDefence hópsins endurspegla núverandi samningar ekki þessa þætti með fullnægjandi hætti. Hins vegar telur InDefence hópurinn að núverandi samningar feli í sér ýmsar úrbætur frá fyrri samningi. Helstu áhættu- og óvissuþættir eru enn til staðar frá fyrri samningum að mati InDefence hópsins. Einnig verður að hafa í huga að lögmæt greiðsluskylda
að baki kröfunum er ekki til staðar.

Helstu áhættuþættirnir lúta að gengisáhættu og áhættu á matsverði eigna þrotabús Landsbanka Íslands, þótt óvissa um virði eigna LÍ sé minni en áður. Auk þeirrar áhættu veit enginn raunverulega á þessu stigi hve langt er í að greiðslur inn á höfuðstól skuldarinnar hefjist. Hve langt verður tímabilið sem vextir safnast á Icesave skuldbindingu þjóðarinnar án þess að
nokkuð greiðist á höfuðstól lánsins? Forsendur samninganefndarinnar um að greiðslur inn á höfuðstól úr þrotabúi LÍ geti hafist innan skamms tíma verða að teljast í bjartsýnara lagi.

InDefence hópurinn hvetur stjórnvöld til þess að birta opinberlega allt mat sem gert var á lagalegri stöðu Íslands á meðan á samningaviðræðunum stóð. Einungis þannig geta íslensk stjórnvöld sýnt þegnum sínum að þau hafi samið þannig að niðurstaðan sé betri en útkoman úr hugsanlegum málaferlum. Ekkert slíkt mat hefur enn verið birt og því er enn ekki hægt að taka afstöðu til mikilvægra þátta málsins.

Við meðferð fjárlaganefndar á fyrirliggjandi frumvarpi er algjört grundvallaratriði að farið verði ítarlega ofan í álit starfshóps fjárlaganefndar undir forystu Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors. Komi í ljós að áhættan sé ásættanleg við að láta reyna á það grundvallaratriði þessa máls hvort greiðsluskylda íslenskra skattgreiðenda á tugum milljarða sé yfirleitt fyrir hendi áður en sú greiðsluskylda er samþykkt með samningi, á það að vera fyrsti kostur íslenskra stjórnvalda að láta reyna á lögmæti  krafnanna.

Sé það mat starfshópsins að áhætta af dómsmáli sé mikil og feli í sér verulega skerðingu á hagsmunum þjóðarinnar, bendir InDefence hópurinn á eftirfarandi: Að mati InDefence hópsins má mæta stærstu áhættuþáttum samningsins með einni breytingu á núverandi samningsdrögum, enda fælist í þeirri breytingu að kostnaður og áhætta íslenskra skattgreiðenda myndi minnka verulega.

Sú breyting felur í sér að í stað þess að núverandi samningar kveði á um heimild Íslands til að leita til dómstóla með þá kröfu hvort íslenskur gjaldþrotaréttur eigi að gilda og íslenski tryggingasjóðurinn njóti forgangs til eigna þrotabús Landsbankans við greiðslur lágmarkstryggingarinnar, þ.e. 20.887 evra, endurspegli samningurinn einfaldlega réttindi sjóðsins að íslenskum lögum og ákvæðum umræddrar tilskipunar og kveði beinlínis á um forgangsrétt íslenska innstæðutryggingasjóðsins til eigna úr þrotabúi Landsbankans.

Í þessari breytingu felst að samningarnir eru færðir að gildandi íslenskum gjaldþrotalögum, ákvæðum innstæðutilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19/EB og ákvæðum laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Jafnstöðusamningar milli aðila verði þannig felldir úr gildi.

Hér er um að ræða réttmæta og eðlilega breytingu á fyrirliggjandi samningsdrögum, sem felur ekkert annað í sér en að samningaðilar fari að gildandi lögum og skráðum leikreglum evrópsku innstæðutilskipunarinnar sem allt Icesave málið byggir á. Þetta á að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera á samning án þess að skorið sé úr um lögmæti greiðsluskyldunnar.
Einnig leggur InDefence hópurinn á það ríka áherslu að áður en núverandi samningsdrög verða afgreidd af Alþingi verði þau borin undir lánsmatshæfisfyrirtækin, til að full vissa fáist um það fyrirfram að lánshæfismat Íslands muni ekki falla verði samningsdrögin staðfest.

Auk þessa minnir hópurinn á að gjaldmiðlaáhætta skapast, verði samningsdrögin samþykkt í núvernaid mynd, vegna misræmis í skiptingu eigna þrotabús LÍ og skuldbindinga TIF eftir gjaldmiðlum auk þess sem krafa TIF á LÍ er skráð í krónum. Lagt er til að Seðlabanka Íslands verði falið að athuga gerð skiptasamninga til að verja áhættu vegna innbyrðis hreyfinga erlendra
gjaldmiðla.